Boðað var til starfsmannafundar á Reykjalundi í hádeginu í dag. Þar var ný framkvæmdastjórn kynnt til sögunnar fyrir starfsfólki sem reyndar mætti fæst á fundinn. Um 200 manns starfa á Reykjalundi, ýmist í fullu starfi eða hlutastörfum, en fréttamaður Vísis á staðnum segir líklega tíu til tuttugu starfsmenn hafa mætt á fundinn.

„Fréttir um starfslokin sköpuðu mikla reiði og sorg meðal starfsmanna Reykjalundar í ljósi langs starfsaldurs og mikilsverðs framlags þessara tveggja einstaklinga til starfseminnar í gegnum árin. Ljóst er að betur hefði mátt takast til við þær aðgerðir og með því koma í veg fyrir þann óróa sem þær sköpuðu. Stjórn SÍBS vill nota þetta tækifæri og biðja hlutaðeigandi velvirðingar á því hvernig málin þróuðust,“ segir í tilkynningu frá SÍBS.

Þau Ólafur og Herdís taka við stjórnunarstöðum sínum í kjölfar starfsloka forvera sinna. Birgis og Magnúsar.
„Starfsfólkið er undirstaða starfseminnar á Reykjalundi og forsenda þess að sú góða endurhæfingarþjónusta, sem fjölmargir Íslendingar þekkja af eigin raun eða í gegnum sína nánustu, verði áfram veitt. Stjórnin mun leitast við að draga lærdóm af málinu og taka tillit til þeirra ábendinga sem komið hafa fram í tengslum við það. Allir á Reykjalundi, hvaða hlutverki sem þeir gegna, eru sammála um mikilvægi þess að starfsemin þar geti haldið áfram að dafna og verði sem áður mikilvæg stoð fyrir það fólk sem er að vinna sig út úr veikindum og til fullrar þátttöku í samfélaginu á ný,“ segir í tilkynningu frá stjórn SÍBS.
„Stjórnin vill að lokum nota tækifærið og færa fráfarandi framkvæmdastjóra lækninga og forstjóra Reykjalundar þakkir fyrir áratugalangt framlag sitt til starfseminnar og samstarf á liðnum árum. Tekið skal fram að engum skugga hefur verið varpað á það góða starf sem þessir tveir fyrrum stjórnendur á Reykjalundi skilja eftir sig. Að því mun stofnunin, starfsmenn og sjúklingar búa til langrar framtíðar.“