Mikil óvissa hefur ríkt á Reykjalundi síðustu vikur og hafa allir læknar nema þrír sagt upp störfum sínum en alls eru um fjórtán stöður á stofnuninni. Í dag er auglýst eftir forstjóra stofnunarinnar í Morgunblaðinu en núverandi forstjóri var tímabundið skipaður í síðasta mánuði.
Í menntunar-og hæfnikröfum kemur meðal annar fram að viðkomandi þurfi að hafa háskólamenntun á sviði stjórnunar og reksturs og æskilegt sé að vað hafa menntun og íslenskt starfsleyfi á sviði heilbrigðisvísinda. Þá er auglýst eftir yfirlæknum á hjartasvið og geðheilsusvið. Ólafur Þór Ævarsson geðlæknir var ráðinn framkvæmdastjóri lækninga í síðasta mánuði. Guðrún Karlsdóttir yfirlæknir á taugasviði sem hefur sagt starfi sínu lausu segir að ráðning hans sé hluti vandans nú.
Fram kom í fréttum í gær að læknar á Reykjalundi vilji að öll framkvæmdastjórnin víki og skipuð verði starfsstjórn. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fundaði með Sjúkratryggingum Íslands og Landlækni vegna stöðunnar í næstu viku.
„Ég sé ekki að ég geti beint beitt mér í málinu en það verður að finna leið í málinu. Ég hef að sjálfsögðu áhyggjur af stöðunni,“ segir Svandís.