Vagnstjóri hjá Strætó segir reykinn mjög áberandi þegar vagninn stoppar í köldu veðri, í logni leiti hann inn í farþegarýmið. Vagnstjórarnir hafa ekki stjórn á því hvenær miðstöðin blæs út reyk. „Það var mjög gott að keyra rafmagnsvagnana fyrst, þeir láta vel að stjórn og eru hljóðlátir. Þessi vandi kom upp nánast strax. Margir farþegar hafa kvartað undan þessu, enda olíulyktin stæk,“ segir vagnstjórinn, sem vildi ekki láta nafns síns getið. Hann keyrði rafmagnsvagn í fjóra daga samfleytt nýverið. „Alla þessa daga fann ég fyrir seiðingshöfuðverk, sumir aðrir vagnstjórar, en ekki allir, hafa fundið fyrir því líka.“

„Í fyrra settum við hitara í miðstöðina sem hitaði upp olíuna í miðstöðinni. Sú lausn lofaði góðu og við urðum minna vör við olíulykt frá miðstöð vagnanna. Við urðum síðan ekkert vör við vandamálið í sumar, þar sem miðstöðin var lítið sem ekkert notuð.“
Vagnstjórinn segir að síðasta laugardag hafi hann verið á ferð í Mjóddinni þegar olíuský hafi leitað inn í farþegarýmið. „Þá kom til mín kona til að kvarta undan þessu, hún var með astma og þurfti að skipta um vagn til að komast niður í bæ. Ég sagði henni að ég væri algjörlega sammála, þetta væri ekki boðlegt,“ segir hann.
Alls hafa borist þrettán formlegar kvartanir til Strætó síðastliðið ár vegna olíureyksins, sjö í fyrra og sex á þessu ári. Guðmundur segir að Strætó eigi von á búnaði frá Finnlandi í desember sem vonast er til að geti leyst málið. Á sá búnaður að hita olíuna meira og sía frá loft sem kann að koma frá olíunni.
„Það eru gjarnan áskoranir sem fylgja nýrri tækni og þetta er eitt dæmi um það. Langstærsti hluti ferða með rafvögnunum er laus við olíulykt og farþegar eru almennt afar ánægðir með vagnana,“ segir Guðmundur. Áætlaður kostnaður við búnaðinn er 250 evrur fyrir stykkið, sem gerir rúmlega 480 þúsund krónur fyrir alla vagnana.