Á vef stjórnarráðsins geta einstaklingar reiknað út í þar til gerðri reiknivél hvernig skattbyrði þeirra breytist á næsta ári. Tekin eru dæmi úr reiknivélinni þar sem manneskja með 280 þúsund krónur í tekjur á mánuði greiðir 69.792 krónum minna í tekjuskatt á ári.
Tekjuskattur einstaklings með 370 þúsund í tekjur á mánuði lækkar um 124.620 krónur á ári og tekjuskattur þess sem er með 835 þúsund í tekjur á mánuði lækkar um 72 þúsund á ári.
Á næsta ári munu skattgreiðslur fólks við fyrstu þrepamörkin lækka um 42 þúsund krónur. Samkvæmt vef stjórnarráðsins hefur þá verið tekið tillit til lækkunar persónuafsláttar sem beitt er í samspili við upptöku nýs lægsta þreps í skattkerfinu. Er þetta gert til þess að beina þunga lækkunarinnar til þeirra sem eru um eða undir meðaltekjum.
„Auk lækkunar tekjuskatts kemur til framkvæmdar seinni hluti 0,5 prósentustiga lækkunar tryggingagjalds, en gjaldið var lækkað um 0,25 prósentustig í upphafi árs 2019.
Tryggingagjaldsprósentan með markaðsgjaldinu og gjaldi í ábyrgðarsjóð launa hefur farið úr 7,59% 2014 í 6,60% 2019 og verður 2020 6,35% sem styður við atvinnusköpun og rekstrargrundvöll fyrirtækja. Hæst var prósentan 8,65% árin 2010 og 2011,“ segir á vef stjórnarráðsins.