Lögreglan á Austur-Jótlandi hafa enn ekki fundið foreldra eða aðra ættingja tveggja ungra barna sem fundust í gær í götunni Park Allé í miðborg Árósa. Lögreglan birti í dag myndir af börnunum, eins árs gamalli stelpu og tveggja og hálfs árs gömlum stráki. Frá þessu er greint á vef danska ríkisútvarpsins.
Ekkert var í fórum barnanna sem gefur lögreglunni vísbendingar um hverjir foreldrar þeirra gætu verið en þau fundust í götunni á laugardagskvöld.

Leitað var í næsta nágrenni að vísbendingum um foreldrana en ekkert fannst.
Bæði börnin eru dökk á hörund og telur lögreglan líklegt að þau séu ættuð frá Austur-Evrópu. Í gærkvöldi greindi Lars Bisgaard, lögreglustjóri, frá því að strákurinn hafi talað örlítið á lögreglustöðinni en enginn hafi skilið tungumálið sem drengurinn talaði.

Lögreglan hefur í fórum sínum myndbandsupptökur úr öryggismyndavélum í götunni sem verið er að skoða og vonast hún til að foreldrar barnanna sjáist á upptökunni.
Lögreglan hvetur einnig almenning til að hafa samband hafi einhver séð börnin. Þau voru tilkynnt af almenningi í gær en drengurinn stóð við hlið kerrunnar sem stúlkan lá í. Þau höfðu verið ein í nokkurn tíma.
Börnin eru nú hjá barnaverndaryfirvöldum.