Lögregluyfirvöld hafa nafngreint hina 21 árs gömlu Krystal Eve Browitt sem eitt fórnarlamba eldgossins á Hvítueyju. Krystal, sem var áströlsk, var á ferðalagi um eyjuna með fjölskyldu sinni þegar gosið varð.
Á vef BBC kemur fram að faðir Krystal og systir hennar liggi nú alvarlega slösuð á sjúkrahúsi eftir eldgosið. Fimmtán dauðsföll hafa verið staðfest og um það bil tuttugu manns liggja á gjörgæsludeild með alvarleg brunasár.
Sjá einnig: Blöðrur og brunasár þökktu líkama allra
Þetta er fyrsta dauðsfallið sem staðfest er af yfirvöldum eftir eldgosið en ættingjar annarra hafa þó birt nöfn margra þeirra sem létust í gosinu opinberlega. 47 manns voru á eða við eyjuna þegar eldgosið hófst nánast fyrirvaralaust og var 23 bjargað af eyjunni.
Meðlimir sérsveita herafla Nýja-Sjálands voru sendir á eyjuna til þess að sækja lík þeirra sem létust. Sex lík fundust á eyjunni í gær og voru kafarar sendir til þess að leita að tveimur líkum nærri eyjunni.
21 árs kona lést í eldgosinu

Tengdar fréttir

Blöðrur og brunasár þökktu líkama allra
Hin 22 ára gamla Lillani Hopkins slapp naumlega undan eldgosinu á Whakaari og hlúði að slösuðu fólki á leiðinni til byggða.

Sérsveitarmenn freista þess að sækja líkin
Átta meðlimir sérsveita herafla Nýja-Sjálands munu freista þess að fara í land á eldfjallaeyjunni Whakaari við fyrstu birtu á morgun, föstudag.

Átta saknað og aðstandendur segja óvissuna versta
Átta er enn saknað eftir eldgosið á Nýja-Sjálandi. Faðir eins, sem ekkert hefur heyrst frá, segir óvissuna það versta.