Ein fjöldahjálparstöð verður áfram opin af hálfu Rauða kross Íslands í nótt. Það er fjöldahjálparstöðin í grunnskólanum í Dalvík þar sem dvelja um 50 manns, flestir verkamenn sem búa í vinnubúðum við höfnina og vinna við nýbyggingu frystihúss Samherja í bænum.
Í tilkynningu frá RKÍ segir að viðbragðsaðilar séu jafnframt með hvíldaraðstöðu í Glerárkirkju á Akureyri sem sjálfboðaliðar Rauða krossins manna.
„Fjöldahjálparstöðvunum á Siglufirði og Ólafsfirði hefur verið lokað, enda rafmagn komið á en þar sem það hefur dottið inn og út eru sjálfboðaliðar tilbúnir að opna með skömmum fyrirvara ef þörf krefur,“ segir í tilkynningu RKÍ.
