Þriggja klukkustunda fundi í kjaradeilu Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga lauk nú um níuleytið í kvöld. Boðað hefur verið til annars fundar í deilunni á laugardagsmorgun klukkan tíu, samkvæmt upplýsingum frá samninganefnd SNS.
Verkfall á þriðja hundrað félagsmanna Eflingar hjá Kópavogsbæ, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesbæ og Sveitarfélaginu Ölfusi hófst á þriðjudag. Verkfallið hefur m.a. haft mikil áhrif á starfsemi grunn- og leikskóla í bæjarfélögunum. Lítill árangur hefur náðst á samningafundum í deilunni hingað til en samningar hafa verið lausir í rúmt ár.
Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar SNS segir í samtali við Vísi nú á tíunda tímanum að samninganefndirnar hafi rætt saman í góða stund í kvöld og þótt ástæða til að halda áfram viðræðum. Því hafi verið boðað til fundar á laugardag.
Finnst þér þetta vera að þokast í rétta átt? Sér fyrir endann á þessu?
„Ég get nú ekki sagt það enn þá en það er alltaf mjög jákvætt þegar menn eru tilbúnir að tala saman,“ segir Inga Rún.
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur sagt kröfur Eflingar langt fram úr hófi og umfram hækkanir annarra bæjarastarfsmanna. Efling berst fyrir því að félagsmenn í þessum sveitarfélögum fái sömu kjarabætur og félagsmenn í Reykjavík og hjá ríkinu.