Kirkjur voru lokaðar um allan heim á páskum í fyrsta sinn í sögunni vegna kórónuveirunnar. Guðsþjónustum var streymt í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum.
Frans páfi kallaði eftir samstöðu og frið á heimsvísu á tímum kórónuveirunnar í páskapredikun sinni í dag. Predikunin fór fram fyrir tómri Péturskirkju en hægt var að hlýða á hana í gegnum netið og var henni sjónvarpað víða. Páfinn hvatti stjórnmálamenn um allan heim til að vinna í sameiningu að hag almennings og hugsa um þá sem eiga um sárt að binda.
Líkt og í vatikaninu var guðsþjónusta með alveg nýju sniði hér á landi. Í kirkjunum sjálfum voru eingöngu þeir sem að þjónustunni sjálfri komu, að sjálfsögðu innan tuttugu manna marka eins og sjá má frá guðsþjónustu í Breiðholtskirkju í morgun. Þau sem hlýddu á voru heima og horfðu á beint streymi. Enn er hægt að nálgast upptökur á heimasíðum kirkjanna.