Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur einróma ákveðið að fresta um óákveðinn tíma að afgreiða tillögu um að landsvæði í kringum fossinn Dynjanda verði friðlýst sem þjóðgarður. Bæjarfulltrúar vilja fyrst sjá vegagerð um Dynjandisheiði í höfn og að raforkuöryggi verði tryggt á Vestfjörðum. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Fossinn Dynjandi er þegar friðlýstur en fyrir lá tillaga, byggð á vinnu samstarfshóps umhverfisráðuneytis, Umhverfisstofnunar og Ísafjarðarbæjar, um verulega stækkun friðlandsins með gerð þjóðgarðs, sem myndi einnig ná yfir Geirþjófsfjörð og friðland Vatnsfjarðar sem og Dynjandisheiði.

Bæjarstjórn Ísafjarðar samþykkti hins vegar á fundi sínum fyrir helgi, með níu samhljóða atkvæðum, að fresta afgreiðslu málsins. Héraðsmiðillinn Bæjarins besta greindi fyrst frá málinu.
Sigurður Jón Hreinsson, bæjarfulltrúi Í-listans, sem mælti fyrir frestun, segir tvennt vaka fyrir bæjarstjórninni; að tryggja að fyrirhuguð vegagerð um Dynjandisheiði komist í höfn - og helst að henni verði lokið áður en svæðið verði gert að þjóðgarði - og einnig að sjá raforkuöryggi tryggt á Vestfjörðum.

Eftir að Hvalárvirkjun hafi verið slegið á frest þurfi að leita annarra leiða til að afla raforku á Vestfjörðum, og þótt enginn sé að tala um að taka vatn af Dynjanda geti verið aðrir möguleikar á svæðinu til virkjana sem ekki megi girða fyrir, að sögn Sigurðar. Bæjarstjórnin telji það forsendu raforkuöryggis á Vestfjörðum að virkjað verði innan fjórðungsins.
Þá leynir Sigurður því ekki að menn séu brenndir eftir að hafa horft á feril Teigsskógarmálsins síðustu fimmtán ár.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: