Verið er að leggja lokahönd á uppsetningu skimunaraðstöðunnar á Keflavíkurflugvelli. Skimunin mun hefjast á mánudag þegar landið verður opnað fyrir ferðamönnum innan Schengen á ný.
Stefnt er að því að skima alla ferðamenn sem koma hingað til lands en börn fædd 2005 og seinna munu ekki þurfa að fara í skimun. Skimunin verður gjaldfrjáls fyrstu tvær vikurnar en mun eftir það kosta 15 þúsund krónur.

Búnaðurinn var prufukeyrður í dag og voru Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir viðstödd. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá embætti Ríkislögreglustjóra segir daginn í dag fara í prófanir og kannað verði hvort leiðirnar í gegnum flugstöðina séu skýrar.

Von er á nokkur hundruð farþegum á mánudag í sjö vélum. Flestir koma frá Kaupmannahöfn og þá helst Íslendingar að koma heim í frí.

Samkvæmt flugáætlun er von á sjö flugvélum til Keflavíkur á mánudag. Fyrstu farþegarnir sem verða skimaðir á vellinum koma með vél SAS frá Kaupmannahöfn og lenda um klukkan hálf ellefu. Aðrar vélar koma frá Osló, Færeyjum, Stokkhólmi og Frankfurt í Þýskalandi.
Farþegar munu hafa val um að fara í skimun eða þá tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins. Niðurstöður úr skimun munu liggja fyrir innan sólarhrings frá því þeir komu til landsins.


Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn segir, flugfélögin renna blint í sjóinn með flugframboðið. Áhuginn sé þó meiri en reiknað var með eftir að áætlanir um opnun voru fyrst kynntar.
„Þá fyrst voru ekki nema þrjár vélar á áætlun en sætanýtingin í þessum vélum er afskaplega lág og við eigum ekki von á nema einhverjum hundruðum farþega á mánudaginn. Þannig það er gott að geta prufukeyrt þetta með minni hóp," segir Víðir.