Vaskir björgunarsveitarmenn úr Hjálparsveit skáta í Kópavogi tóku sig til og skiptu um þak á húsnæði sveitarinnar á Kársnesi í gær.
Oddgeir Sæmundsson hjá sveitinni segir að liðsmenn sveitarinnar hafi byrjað að rífa upp fyrstu naglana á gamla þakinu um sjöleytið í gærmorgun. „Við skiptum einhverja 500 fermetra og vorum að reka niður síðasta naglann um klukkan 14. Þannig að þetta tók ekki langan tíma.“
Oddgeir segir gærdaginn enn og aftur hafa sýnt hvað sveitin er vön að vinna saman í hóp og láta verkin ganga vel.
Hann segir Hjálparsveit skáta í Kópavogi lengi hafa verið til húsa á þessum slóðum. Sveitin hafi svo flutt í þetta hús árið 2011.
„Þakið var farið að leka og það er verið að fegra hverfið í kring. Við viljum taka þátt í því og ætlum okkur að vera þarna áfram svo við ákváðum að ráðast í þessar framkvæmdir nú. Þetta gekk svakalega vel og nýja þakið heldur vatni og ætti að duga næstu fimmtíu árin,“ segir Oddgeir.



