Baráttudagur íslenskra kvenna er í dag og í tilefni dagsins lagði Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar, blómsveig að leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Hólavallakirkjugarði í morgun.
Bríet átti ríkan þátt í að koma á réttarbótum konum til handa og efla þannig lýðræðissamfélagið í heild sinni. Hún var stofnandi Kvenréttindafélags Íslands og var fyrsti formaður þess og allt til ársins 1928.
Markmið félagsins var að stuðla að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn.