Hæstiréttur Oklahoma dæmdi í dag að fjöldafundur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sem halda á í Tulsa á laugardag, megi fara fram. Þetta er fyrsti fjöldafundur forsetans frá því í mars. Kæra var lögð fram í vikunni í von um að stöðva fundinn vegna áhyggna um að fundurinn myndi auka líkur á frekari útbreiðslu kórónuveirunnar.
Tilfellum kórónuveirunnar hefur fjölgað í Oklahoma síðustu vikur og hafa heilbrigðisyfirvöld í ríkinu lýst yfir áhyggjum vegna fundarins. Talsmenn kosningabaráttu Trumps lýstu því yfir að meira en milljón hafi óskað eftir miðum á fundinn um helgina.
Röð byrjaði að myndast fyrir utan Bank of Oklahoma Center, staðinn þar sem fundurinn verður haldinn, fyrr í þessari viku. Um nítján þúsund manns komast inn í salinn sem fundurinn mun fara fram í.
Ákæran var lögð fram í nafni íbúa og fyrirtækja á svæðinu sem vildu tryggja að fjarlægðarmörk samkvæmt fyrirmælum sóttvarnaryfirvalda Bandaríkjanna yrðu tryggð á viðburðinum eða að honum yrði aflýst. Hæstiréttur ríkisins sagði þó að tilslakanir væru farnar af stað í ríkinu og að fjarlægðartakmörk væru í höndum einstaka fyrirtækjaeigenda og einstaklinga.
Þá hefur kosningastjórn Trump greint frá því að hiti viðstaddra verði mældur við innganginn og að boðið verði upp á handspritt og grímur á staðnum. Þá þurfa allir sem kaupa miða á netinu fyrir fundinn að haka við það að þeir taki alla ábyrgð smitist þeir af kórónuveirunni á viðburðinum og muni ekki kenna kosningabaráttu forsetans um „veikindi eða slys.“
Forsetinn sjálfur hefur mótmælt kröfunni um að fólk þurfi að bera grímur og sagt það vera á ábyrgð hvers og eins. Þá sagði Kayleigh McEnany, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, að þó að gestum væri boðið upp á grímur væri þeim ekki skylt að bera þær fyrir vitum. Hún sjálf muni ekki vera með grímu á viðburðinum.