Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt í morgun áfram gagnrýni sinni á póstkosningakerfið sem mörg ríki munu notast við í forsetakosningunum sem fram fara í nóvember. Nú þegar fimm mánuðir eru til kosninga spáir forsetinn því að forsetakosningarnar verði „skandall“.
Trump notast alfarið við hástafi í tísti sínu í morgun þar sem hann segir:
„Kosningarnar 2020 þar sem brögð eru í tafli: Erlend ríki og aðrir aðilar munu prenta milljónir póstatkvæða. Þetta verður stærsti skandall okkar tíma,“ skrifar forsetinn.
Trump hefur áður gagnrýnt póstatkvæðakerfið og hefur Twitter merkt færslur hans sérstaklega sem villandi.
Vegna kórónuveirunnar hafa mörg ríki Bandaríkjanna ákveðið að leita leiða til að hægt verði að tryggja öryggi kjósenda, meðal annars með því að greiða atkvæði í pósti.