Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur bannað útgáfu nýrra atvinnuleyfa og meinað hundruðum þúsund erlendra borgara að sækja um atvinnu í Bandaríkjunum. Banninu er ætlað að standa yfir til loka ársins og er áætlað að það muni hafa áhrif á um 525 þúsund manns. Þar á meðal eru um 170 þúsund manns sem munu ekki geta sótt um landvistarleyfi eftir að Trump framlengdi einnig bann við útgáfu þeirra.
Hvíta húsið segir ákvörðuninni ætlað að draga úr atvinnuleysi meðal Bandaríkjamanna. Forsvarsmenn atvinnulífsins vestanhafs hafa hins vegar mótmælt henni harðlega, samvkæmt frétt BBC, og segja hana koma í veg fyrir að hægt verði að ráða nauðsynlega starfsmenn í störf sem Bandaríkjamenn virðast ófáanlegir til að vinna eða ráða ekki við.
Meðal annars hefur bannið áhrif á störf í heilbrigðisgeiranum, hugbúnaðargeiranum, ferðamannaiðnaði, í matvælaframleiðslu og störf barnfóstra.
Samkvæmt New York Times, hefur Stephen Miller, hinn umdeildi ráðgjafi Trump og arkitekt innflytjendastefnu hans, um árabil reynt að ná þessu banni í gegn. Undanfarna mánuði hefur hann ítrekað nauðsyn þess.
Þó múrinn sem Trump vill reisa á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó til að draga úr fjölda fólks sem ferðast ólöglega til Bandaríkjanna hafi notið mikillar athygli hafa aðgerðir ríkisstjórnar Trump til að draga úr fjölda löglegra innflytjenda í Bandaríkjunum verið verulega umfangsmiklar.
Eins og áður segir eru forsvarsmenn atvinnulífsins ekki sáttir við þessa ákvörðun. Meðal þeirra sem hafa tjáð sig er Thomas J. Donohue, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Bandaríkjanna.
„Að setja upp skilti sem segir verkfræðinga, stjórnendur, hugbúnaðarsérfræðinga, lækna, hjúkrunarfræðinga og aðra starfsmenn óvelkomna mun ekki hjálpa landinu, það mun halda aftur af okkur. Takmarkandi breytingar á innflytjendakerfi Bandaríkjanna mun færa fjárfestingar og rekstur til annarra ríkja, draga úr hagvexti og fækka störfum,“ sagði Donohue.
Aðrir gagnrýnendur Trump segja hann vera að nota heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar og efnahagsaðstæður hans vegna í pólitískum tilgangi.