Þrjátíu hafa nú verið handteknir í Hong Kong á grundvelli nýrra öryggislaga kínverskra yfirvalda.
BBC segir frá því að einn hinna handteknu hafi verið með fána og staddur á mótmælafundi en á fánanum sem maðurinn hafði í fórum sínum var ritað „Sjálfstætt Hong Kong“.
Samkvæmt hinum umdeildu öryggislögum sem tóku gildi í dag er refsivert að grafa undan yfirráðum kínverskra stjórnvalda í sjálfsstjórnarhéraðinu. Þá er hvers kyns niðurrifsstarfsemi, leynimakk með erlendum öflum og krafa um aðskilnað Hong Kong og Kína refsiverð.
Viðurlög við sumum ákvæðanna er lífstíðarfangelsi. Fjöldi fólks er óttasleginn vegna laganna og segja þau grafa undan sjálfsmynd Hong Kong og frelsi íbúa.
#BREAKING: A man was arrested for holding a #HKIndependence flag in #CausewayBay, Hong Kong, violating the #NationalSecurityLaw. This is the first arrest made since the law has come into force. pic.twitter.com/C0ezm3SGDm
— Hong Kong Police Force (@hkpoliceforce) July 1, 2020
Lögin eru svar stjórnvalda við kröftugri mótmælahrinu íbúa Hong Kong í fyrra en mótmælin snerust um önnur umdeild lög sem mótmælendur sögðu að væru undanfari aukinna ítaka kínveskra stjórnvalda í héraðinu.
Lögin gætu markað stærstu breytingu á lifnaðarháttum íbúa í Hong Kong frá því Bretar afhentu Kínverjum héraðið árið 1997. Það var gert gegn loforði um að réttindi og frelsi íbúa í Hong Kong yrðu áfram tryggð með stefnunni „eitt land – tvö kerfi“.