Vinna er hafin við að hreinsa upp úr höfninni á Flateyri eftir snjóflóðin sem þar féllu á þriðjudagskvöld. Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar segir í samtali við fréttastofu að mikið verk sé fyrir höndum en vonast er til þess að það takist að koma fyrsta bátnum, Blossa, í land í dag.
Fullskipað lið kafara, björgunarsveitir og áhöfn varðskipsins Þórs eru meðal þeirra sem taka þátt í aðgerðunum. Þá er sérstakur bátur kominn á svæðið sem verður notaður til að hífa upp léttustu bátana á land og mun hann eftir atvikum einnig nýtast til aðstoðar við að ná upp öðrum stærri bátum. Unnið verður hörðum höndum að því að hreinsa úr höfninni eftir því sem veður leyfir í dag og næstu daga en aðgerðin er mjög háð veðurskilyrðum.
Einblínt verður á að reyna að ljúka verkinu eins hratt og auðið er. Að sögn Guðmundar virðist sem minni olíumengun hafi orðið en óttast var í fyrstu. Allur tiltækur mengunarvarnarbúnaður er kominn á svæðið. Engin olía lekur úr bátunum eins og er, og eru allir á vettvangi í viðbragðsstöðu ef eitthvað fer úrskeiðis þegar hreyft verður við bátunum að sögn Guðmundar.
