Landrisið við fjallið Þorbjörn á Reykjanesskaga mælist á sama hraða og það hefur mælst síðustu daga, eða þrír til fjórir millimetrar á dag. Það þykir óvenju hratt en búast má við áframhaldandi skjálftavirkni á svæðinu.
„Þróunin síðasta sólarhringinn er bara mjög svipuð og hún hefur verið frá upphafi. Það er stöðugt landris, þrír til fjórir millimetrar á dag, og það sem við sjáum í morgun er að það hefur haldið áfram,“ segir Benedikt Ófeigsson, sérfræðingur í jarðskorpuhreyfingum hjá Veðurstofu Íslands í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
Þar segir hann einnig að búast megi við áframhaldandi skjálftavirkni á svæðinu.
Þá er búið að setja upp tvo nýja mæla til vöktunar á svæðinu í kringum Grindavík.
„Það er stefnan að setja upp alla vega tvo mæla, einn uppi á fjallinu Þorbirni og síðan á ákjósanlegum stað vestan við fjallið“, segir Benedikt.
Grannt er fylgst með þróun mála og söfnun gagna og stendur til að halda næsta formlega samráðsfund vísindamanna á fimmtudaginn.

..