Slóvenska knattspyrnufélagið Olimpija Ljubljana harmar það að allir leikmenn liðsins þurfi að vera í tveggja vikna sóttkví nánast alveg fram að leiknum mikilvæga við Víking R. í forkeppni Evrópudeildarinnar.
Liðin eiga að mætast í Slóveníu fimmtudaginn 27. ágúst. Eftir að tveir leikmenn Olimpija og sjúkraþjálfari greindust með kórónuveirusmit var allur leikmannahópurinn sendur í sóttkví til og með 22. ágúst. Leikmenn Olimpija geta því ekki æft saman fyrr en fjóra síðustu dagana fram að leiknum við Víking, og ekki spilað leiki, nema að eitthvað breytist. Upphafi keppnistímabilsins í Slóveníu var frestað til 22. ágúst.
Í yfirlýsingu frá Olimpija í dag er biðlað til heilbrigðisyfirvalda og knattspyrnusambands Evrópu um að félagið fái að senda leikmenn aftur til æfinga að undangengnum smitprófum. Afar mikið sé undir fyrir félagið og slóvenskan fótbolta, og æfingar séu nauðsynlegar til undirbúnings fyrir Evrópuleikinn, ekki síst þar sem að fjöldi nýrra leikmanna sé kominn til liðsins.
Varlega farið verði æfingar leyfðar
Forráðamenn Olimpija benda á að tuttugu leikmenn hafi greinst með neikvætt próf, þeir verði í einangrun utan æfinga og öllum öðrum sóttvarnaráðum fylgt fái æfingar að hefjast að nýju. Í öðrum löndum fái lið að halda áfram að æfa þó að einstaka leikmenn greinist með smit. Ljóst sé að fjöldasamkomur séu enn leyfðar þar sem „ómögulegt sé að viðhalda sóttvarnareglum“ og að verslunarmiðstöðvar, veitingastaðir og knæpur séu áfram opnar almenningi.
Hvort yfirlýsingin skilar einhverju verður að koma í ljós. Ef af leiknum verður, eins og útlit er enn fyrir, er sömuleiðis enn óljóst hvort að leikmenn Víkings þurfa að fara í sóttkví hér á landi við komuna aftur til landsins. KR-ingar eru í sömu sporum en þeir fara til Skotlands í dag. Verið er að skoða hvort að knattspyrnulið geti fengið undanþágu frá íslensku reglunum.