Um fimmtíu manns á vegum Eflingar, með Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann í broddi fylkingar, mættu við Jafnréttisþingið í Hörpu klukkan tíu til að mótamæla því sem þau kalla „virðingarleysi samfélagsins gagnvart umönnunarstörfum“.
Blaðamaður Vísis á svæðinu segir liðsmönnum Eflingar hafa verið fagnað með lófataki við komuna. Starfsfólk Eflingar í Reykjavík er sem kunnugt er í verkfallsaðgerðum sem meðal annars hafa leitt til þess að kennsla hefur verið felld niður í Réttarholtsskóla í dag og á morgun þar sem allir sem sinna þrifum í skólanum eru í verkfalli.

Eflingarfólk hittist við Eflingarhúsið við Guðrúnartún klukkan 9:30 og hélt þaðan niður að Hörpu.
„Myndum órjúfanlega blokk. Tryggjum að ráðamenn horfi ekki lengur í gegnum okkur. Samstaða er okkar beittasta vopn! Saman breytum við samfélaginu!“ sagði í hvatningarskilaboðum til félagsmanna á vefsíðu Eflingar í gær.

Fundi samningarnefnda Reykjavíkurborgar og Eflingar í gær lauk án árangurs. Efling lýsti því að enn á ný hefði borgin slegið á sáttahönd láglaunafólks. Borgarstjóri segir tilboð upp á 420 þúsund króna grunnlaun fyrir ófaglærða starfsmenn á borðinu og að auki 40 þúsund króna álagsgreiðsla. Líklega væri um að ræða mestu hækkun lægstu launa sem samið hafi verið um.
Að lokinni ræðu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í upphafi þingsins stýrði Sólveig Anna hrópum. Spurði fylgisfólk sitt hvað þau vildu og allir hrópuðu „leiðréttingu“. Myndskeið frá mótmælunum má sjá hér að neðan.