Læknar vilja ekki leyfa fjölskyldu Alexei Navalny að flytja hann til Þýskalands en aðstandendur hans segja yfirvöld í Rússlandi hafa eitrað fyrir honum. Navalny, sem leitt hefur stjórnaranstöðuna í Rússlandi, missti meðvitund í flugi frá Síberíu til Moskvu í gær og var hann fluttur á sjúkrahús í borginni Omsk.
Navalny hefur lengi barist gegn spillingu í Rússlandi og gagnrýnt Vladimir Pútín, forseta Rússlands. Hann er nú í dái og í alvarlegu ástandi. Læknar segjast vera að berjast fyrir lífi hans.
Aðstandendur Navalny krefjast þess að hann verði fluttur til Þýskalands til aðhlynningar, þar sem þau treysta rússneskum læknum og lögreglu ekki, samkvæmt frétt Moscow Times. Sjúkraflugvél frá Þýskalandi er þegar lent í Omsk og segja aðstandendur Navalny að það sé í raun ríkisstjórn Vladimir Pútín, forseta, sem standi í vegi flutnings Navalny.
Kira Yarmysh, talskona Navalny, sagði á Twitter í morgun að eina ástæða þess að ekki verið búið að leyfa flutningana væri til að gefa eitrinu tíma til að hverfa úr líkama hans. Til þess væru yfirvöld að ógna lífi hans.
Í öðru tísti sagði hún ljóst að ríkisstjórnin stæði í veg fyrir flutningunum, þar sem læknar hafi áður sagt hægt að flytja Navalny. Læknar sögðu í gær að Navalny væri í stöðugu ástandi en í dag segja þeir ástand hans ekki nógu stöðugt til að flytja hann til Þýskalands.
Ivan Zhadanov, framkvæmdastjóri stofnunar sem Navalny stofnaði gegn spillingu, sagði blaðamönnum að lögreglan hefði sagt eitur hafa fundist í líka Navalny. Það væri hættulegt öðrum í kringum hann en þeir vildu ekki segja hvaða eitur um væri að ræða.
Aðstoðaryfirlæknir sjúkrahússins hefur þó haldið því fram að ekkert eitur hafi fundist í líkama Navalny.
Yarmysh birti í morgun mynd sem hún segir hafa verið tekna á skrifstofu yfirlæknis sjúkrahússins. Þar séu engir læknar, heldur þrír jakkafataklæddir menn sem neita að segja hverjir þeir séu.