Norður Atlantshafsbandalagið, NATO, segir ekkert til í staðhæfingu Alexanders Lúkasjenkó forseta Hvíta-Rússlands sem hefur haldið því fram að óvinaþjóðir safni saman herafla við landamæri að Hvíta-Rússlandi.
Lúkasjenkó sagði að hermenn í Póllandi og Litháen væru í startholunum og að markmið NATO væri að koma nýjum forseta til valda í Mínsk. Til þess að svara þessari meintu ógn sagði Lúkasjenkó að hvít-rússneskir hermenn yrðu sendir til landamæranna í vesturhluta landsins.
Frá forsetakosningunum umdeildu sem haldnar voru í Hvíta-Rússlandi fyrr í mánuðinum hefur mikill fjöldi mótmælt setu Lúkasjenkó í forsetastóli en hann hefur gegnt embætti forseta frá 1994. Þúsundir mótmælenda hafa verið handteknir en ekkert lát virðist ætla að verða á baráttunni gegn forsetanum.
BBC hefur eftir Lúkasjenkó að hann telji erlenda aðila vera að reyna að valda usla í Hvíta-Rússlandi til þess að fella ríkisstjórnina. Skipaði Lúkasjenkó öryggisráði landsins að verja landsvæði Hvíta-Rússlands með kjafti og klóm.
NATO segir að ásakanir Lúkasjenkó séu fjarri lagi og ekki á rökum reistar. „Við erum engin ógn við Hvíta-Rússland eða nokkuð land og erum ekki að safna saman herliði á þessu svæði,“ segir í svari bandalagsins við ásökunum hvítrússneska forsetans og var hann einnig hvattur til að virða mannréttindi borgara sinna.
Þá hafa stjórnvöl í Póllandi einnig hafnað ásökununum og segja einungis um áróður hvít-rússnesku stjórnarinnar að ræða.