Andstæðingar Víkings R. í undankeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta gátu ekki æft saman í tvær vikur vegna sóttkvíar. Víkingar flugu til Slóveníu í dag og mæta þar Olimpija á morgun.
Leikmenn Olimpija voru allir settir í sóttkví eftir að kórónuveirusmit greindist hjá þremur þeirra. Í ljósi þess að leikurinn mikilvægi við Víkinga var handan við hornið reyndu forráðamenn Olimpija að þrýsta á stjórnvöld og færa fyrir því rök að það væri í lagi að þeir kæmu saman til æfinga, en þess í stað hafa leikmenn æft heima, hver í sínu lagi, síðustu tvær vikur.
Sóttkvíinni lauk um helgina og æfingar Olimpija hófust að nýju á sunnudag. Leikmannahópurinn var svo allur smitprófaður í gær og reyndist ekkert sýni jákvætt.
„Þetta hafa verið mjög erfiðar tvær vikur hjá okkur án alvöru æfinga. Við fáum örfáa daga til að undirbúa okkur eins vel og við getum fyrir Evrópuleikinn. Þrátt fyrir þessar aðstæður sem við erum í þá gerum við allt sem við getum til að nýta tímann og undirbúa okkur fyrir leikinn við Víkinga,“ sagði Dino Skender þjálfari Olimpija, sem kveðst búinn að rýna vel í leikstíl Víkings.
Fyrir #eurovikes dugir ekkert minna en 6 sæti á mann #fotboltinet @vikingurfc pic.twitter.com/eBKaw6zYsV
— Haraldur Haraldsson (@HarHaralds) August 26, 2020
Leikmenn Víkings ferðuðust í einkaflugi til Slóveníu í dag, eftir að hafa farið í smitpróf heima á Íslandi, en leikur bikarmeistaranna við Olimpija er kl. 16.30 á morgun að íslenskum tíma. Víkingar þurfa svo að fara í vinnusóttkví við komuna aftur til Íslands og munu ekki spila aftur fyrr en að loknu landsleikjahléi, eftir hálfan mánuð.