Bólusetning við HPV-veiru getur veitt nánast fullkomna vörn við leghálskrabbameini ef hún er gerð áður en konur byrja að stunda kynmök, segir Kristján Oddsson, kvensjúkdómalæknir og fagstjóri lækninga hjá heilsugæslunni í Hamraborg. Það sé hins vegar lykilatriði að konur mæti í skimun fyrir leghálskrabbameini þegar þær fá boðun í hana, óháð því hvort þær séu bólusettar eða ekki.
Umræða um HPV-veiru, sem veldur krabbameinum, hefur verið mikil undanfarna daga eftir fréttir um mistök við skimanir hjá Krabbameinsfélagi Íslands. Hér á landi eru markaðssett tvö bóluefni gegn HPV og er annað þeirra gefið tólf ára stúlkum til varnar leghálskrabbameini. Hitt bóluefnið ver bæði stúlkur og pilta gegn vörtuveirum og sýkingum vegna HPV. Virknin hins vegar minnkar eftir að konur byrja að stunda kynmök
„Gagnsemi bólusetningar er nánast 100 prósent ef það er gert áður en kynmök hefjast. Hins vegar geta ungar konur, og mörg lönd fóru þá leið að bjóða konum til 26 ára aldurs fría bólusetningu. Það hefur verið rætt líka að jafnvel konur til 45 ára aldurs gætu haft gagn af bólusetningu. Með því þá að þær hafi ekki smitast af þeim veirum sem valda þessu því bóluefnið læknar ekki þá sýkingu sem orðið hefur, heldur kemur í veg fyrir hana,“ segir Kristján í samtali við fréttastofu.
Allar konur geti óskað eftir bólusetningu.
„Bóluefnið Cervarix kostar í kringum 50 þúsund krónur í þremur skömmtum. Og með þessu nýgilda bóluefni þá kostar það í kringum 70 þúsund og þá færðu 90 prósent vörn, en með því skilyrði að þú hafir aldrei stundað kynmök.“
Mikilvægast af öllu sé þó að mæta í skimun.
„Aðalatriðið í skimun við leghálskrabbameini er að konur mæti þegar þær fá boðun. Þátttakan er númer eitt, tvö og þrjú,“ segir hann.