Þrír fórust í gróðureldunum miklu sem geisa í Kaliforníu í gær en þeir eru sagðir breiðast út á fordæmalausum hraða. Aska og reykur frá eldunum skyggir á sólina og litar himininn appelsínugulan. Um helmingur Kaliforníubúa er nú sagður anda að sér menguðu lofti.
Eldarnir í Kaliforníu í ár eru þeir mestu sem sögur fara af en þeir kviknuðu í methita, þurrki og hvassviðri. AP-fréttastofan segir að á þriðja tug gróðurelda brenni nú í ríkinu, þar á meðal þrír af þeim fimm stærstu í sögu þess.
Frá miðjum ágúst hafa ellefu manns farist í eldunum í Kaliforníu og um 3.600 byggingar orðið honum að bráð. Þúsundir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sína vegna eldanna.
Yfirvöld í norðanverðri Kaliforníu segja að þrír hafi farist í Bear-eldinum svonefnda þar í gær. Einn þeirra látnu fannst í bíl og virðist hafa reynt að flýja undan eldinum. Eldurinn stefnir nú suðvestur í átt að Butte-sýslu, þar á meðal bænum Paradís sem eyðilagðist nánast algerlega í gróðureldum árið 2018 og 85 manns fórust.
Í Washington-ríki norðar á vesturströnd Bandaríkjanna hefur stærra landsvæði brunnið á einum degi en slökkviliðsmenn þar sjá venjulega á heilu ári. Íbúar í Oregon og Idaho hafa einnig þurft að flýja heimili sín.
Sögulega hröð útbreiðsla
Eldurinn breiðir úr sér á ógnarhraða í skraufþurru gróðurlendi. Daniel Swain, loftslagsvísindamaður við Kaliforníuháskóla, segir við AP-fréttastofuna að varlega áætlað hafi meira en þúsund ferkílómetrar lands brunnið á einum sólarhring.
„Ótrúlegur hraði útbreiðslunnar sem við sjáum í þessum eldum er sögulega fordæmalaus,“ tísti Swain.
Reykurinn yfir stórum hluta Kaliforníu var svo þykkur í gær að appelsínugul slikja vofði yfir himninum sem sólin náði aðeins af veikum mætti í gegnum. Ökumenn í San Francisco og víðar hafa þurft að kveikja á þokuljósum til að sjá fram fyrir sig í mistrinu.
Los Angeles Times segir að loftgæði í ríkinu hafi verið sjaldan verið eins slæm. Í Yosemite-dalnum, einum vinsælasta þjóðgarði ríkisins, mældist svifryksmengun sexfalt verri en í Los Angeles.
„Um helmingur íbúa ríkisins hafa orðið fyrir áhrifum af magni reyks frá gróðureldunum sem fer yfir loftgæðaviðmið,“ segir Melanie Turner, talskona Loftgæðastofnunar Kaliforníu, við blaðið.
Sums staðar í sunnanverðri Kaliforníu féll sót af himni eins og snjór. Gefnar voru út viðvaranir vegna loftgæða í Los Angeles-, San Bernardino-, Riverside- og Orange-sýslum.
Reykurinn er svo þykkur að dregið hefur hita miðað við veðurspár í kringum San Francisco. Það hefur hjálpað til við að halda reyknum ofar í loftinu og forðað fólki frá enn verri loftmengun.