Alexander Lúkasjenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hefur haldið til fundar við Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Rússlandi.
Verður þetta fyrsti fundur þeirra Lúkasjenkó og Pútín, augliti til auglitis, frá því að mótmælaaldan braust út í Hvíta-Rússlandi eftir hina umdeildu forsetakosningar í síðasta mánuði.
Pútín telur Lúkasjenkó lögmætan forseta Hvíta-Rússlands og kveðst reiðubúinn að grípa inn í fari mótmælin þar úr böndunum.
BBC segir frá því að talið sé að Pútín vilji efla samstarf ríkjanna í skiptum fyrir áframhaldandi stuðning við forsetann.
Fundur Pútín og Lúkasjenkó fer fram í borginni Sotsjí við Svartahaf. Á sama tíma hefst sameiginleg heræfing ríkjanna nærri hvítrússnesku borginni Brest.
Tugir þúsunda komu saman til mótmæla í hvítrússnesku höfuðborginni Minsk og fleiri borgum í gær, þar sem afsagnar Lúkasjenkó var krafist. Talsmaður lögreglu segir að um fjögur hundruð manns hafi verið handteknir.
Lúkasjenkó hefur gegnt embætti forseta í Hvíta-Rússlandi í 26 ár og hefur verið sakaður um kosningasvindl. Kjörstjórn landsins segir forsetann hafa verið endurkjörinn með um 80 prósent atkvæða.