Sony heldur í kvöld kynningu varðandi nýjustu leikjatölvu fyrirtækisins, Playstation 5. Vonir eru bundnar við að fyrirtækið muni gefa út hvenær tölvurnar munu sjást í hillum verslana og hvað þær muni kosta. Áherslan verður þó lögð á nýja leiki.
Búist er við því að tölvan verði gefin út fyrir þessi jól.
Microsoft, helsti keppinautur Sony, tilkynnti nýverið að nýjast kynslóð Xbox leikjatölvunnar myndi rata í hillur verslana þann 10. nóvember. Sony hefur þó enn varist allra fregna um útgáfudag og verð PS5.
Kynningin í kvöld mun standa yfir í um það bil 40 mínútur. Samkvæmt tæknimiðlum ytra verður mest áhersla lögð á leiki sem verða gefnir út samhliða nýju leikjatölvunum og leiki sem verða endurbættir með getu nýju tölvunnar í huga.
Eins og áður segir þá er vonað að frekari upplýsingar um tölvuna muni einnig líta dagsins ljós. Þar má nefna, auk verðs og útgáfudags, hvernig stýrikerfi tölvunnar mun líta út. Litlar sem engar upplýsingar varðandi það hafa verið birtar, fyrir utan stutt myndband í sumar.
Eins og áður segir, þá hefst kynningin klukkan átta. Hægt verður að fylgjast með henni hér að neðan.