Tsai Ing-wen, forseti Taívan, segir það að kínverskum herþotum hafi verið flogið að eyríkinu tvisvar sinnum á síðustu dögum, sé til marks um þá ógn sem ríkjum í austurhluta Asíu stafi af Kína. Hún segir það í það minnsta hafa sannfært íbúa Taívan um raunverulegt eðli ríkisstjórnar Kína.
Bæði á föstudaginn og laugardaginn var herþotum flogið yfir Taívansund og inn í lofthelgi eyríkisins. Á sama tíma standa heræfingar herafla Kína yfir við sundið.
Háttsettur embættismaður frá Bandaríkjunum heimsótti Taívan fyrir helgi og hafa yfirvöld í Peking brugðist reið við þeirri heimsókn og öðrum ummerkjum um aukin opinber samskipti Bandaríkjanna og Taívan.
Talsmaður utanríkisráðuneytis Kína sagði á föstudaginn að „þeir sem leika sér að eldi munu brenna sig.“
Þar að auki birti flugher Kína myndband í gær sem sýndi sprengjuflugvél, sem getur borið kjarnorkuvopn, flogið að herstöð. Virtist sem að verið væri að æfa árás á herstöð Bandaríkjanna í Gvam.
Tsai ræddi við blaðamenn í morgun og fordæmdi hún heræfingar Kína. Hún sagði þær skaða ímynd Kína út á við og væru til þess fengnar að yfirvöld í Taívan grípi til aukinna varna gegn Kína.
„Þar að auki hafa önnur ríki á svæðinu öðlast betri skilning á þeirri ógn sem stafar af Kína,“ sagði hún. „Kínversku kommúnistarnir þurfa að halda aftur af sér, ekki ögra.“
Yfirvöld í Kína líta á Taívan sem eigið landsvæði og hafa jafnvel hótað að ná þar tökum með valdi. Taívan hefur verið með heimastjórn frá 1950 og er í reynd sjálfstætt þrátt fyrir að hafa aldrei lýst formlega yfir sjálfstæði frá Kína.
Sjálfstæðissinnum hefur þó verið að vaxa ásmegin í Taívan á undanförnum árum.
Ríkismiðlar í Kína birtu í morgun ummæli Wang Yang, sem er fjórði æðsti embættismaður Kommúnistaflokks Kína samkvæmt Reuters. Hann ítrekaði að Taívan yrði aldrei sjálfstætt og að eyríkið ætti ekki að reiða sig á útlendinga.
Wang sagði einni að Kommúnistaflokkurinn myndi aldrei sætta sig við ógnir gagnvart fullveldi og öryggi Kína.