Tugir mótmælenda í Hvíta-Rússlandi voru handteknir af lögreglu í dag. Tugir þúsunda höfðu safnast saman til þess að mótmæla setu Alexanders Lúkasjenkó, forseta landsins, á valdastóli.
Meira en fimmtíu mótmælendur voru handteknir á mótmælunum í dag að sögn mannréttindahópa í Hvíta-Rússlandi. Þá hafa myndbönd frá mótmælunum í dag litið dagsins ljós þar sem lögregla virðist spreyja ertandi vökva í andlit mótmælenda í einni hvítrússneskri borg.
Fjöldi ríkja viðurkenna Lúkasjenkó ekki sem réttmætan forseta
Í dag er fimmtugasti dagur mótmæla í Hvíta-Rússlandi sem hófust daginn sem Lúkasjenkó var endurkjörinn forseti landsins. Niðurstöður kosninganna hafa margir sagt falsaðar, og telja stjórnarandstæðingar að Lúkasjenkó hafi beitt kosningasvindli til þess að ná sínu fram.
Samkvæmt opinberum kosningatölum hlaut Lúkasjenkó um 80 prósent atkvæða en stjórnarandstæðingar segja að niðurstöðurnar séu falskar, og að frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, Svetlana Tíkanovskaja, hafi hlotið minnst 60 prósent atkvæða.
Þá hefur fjöldi evrópskra ríkja auk Bandaríkjanna lýst því yfir að þau viðurkenni Lúkasjenkó ekki sem réttmætan forseta landsins.
Fyrr í þessari viku var haldin innsetningarathöfn Lúkasjenkó í embættið, en hann hefur þó verið forseti landsins frá árinu 1994.
Beittu táragasi og blossasprengjum
Lögreglan í borginni Gomel hefur þegar viðurkennt að hafa beitt mótmælendur sem þeir sögðu „óhlýðna mótmælendur,“ táragasi og blossasprengjum í dag. Þá hafa myndbönd sýnt lögreglumenn spreyja ertandi vökva framan í mótmælendur.
Í Minsk, höfuðborg landsins, mótmæltu tugir þúsunda sjöundu helgina í röð. Óeirðalögregla handtók fjölda fólks, sem lögreglumenn drógu úr hópum mótmælenda og fluttu á brott í ómerktum bílum.