Þegar vagnstjóri hjá Strætó ætlaði að fara með vagn á leið í morgun blasti við honum töluvert magn filmu á jörðinni við hliðina á vagninum. Filman reyndist vera af vagninum sjálfum sem auglýsing Sunnudagaskólans prýddi.
„Hann ætlaði með vagninn á leið og þá sá hann fullt af filmu á jörðinni og skildi ekkert í því. Svo kíkti hann upp og sér bara þetta – það var búið að skrapa Jesú í burtu af auglýsingunni,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, í samtali við fréttastofu.
Jesú-skreytingin hefur vakið mikið umtal frá því að hún birtist upphaflega sem kynningarefni fyrir Sunnudagaskólann. Þar má sjá stóran og mikinn regnboga og skeggjaðan Jesú með brjóst. Auglýsingin vakti mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum; sumir töldu hana skref í rétta átt á meðan sumir meðlimir Þjóðkirkjunnar gagnrýndu hana harðlega.
Guðmundur segir ljóst að skemmdarverkin beinist einungis að Jesú-myndinni sjálfri. Þar hafi filman verið skröpuð af en aðrir hlutar verksins látnir í friði. „Okkur grunar að einhver hafi komið í nótt og skemmt teikninguna inni á vagnasvæði hjá okkur.“
Öryggismyndavélar eru á svæðinu þar sem vagninn stóð og verður farið yfir efni úr þeim við fyrsta tækifæri. Að sögn Guðmundar er ólíklegt að börn hafi verið að verki þar sem skemmdirnar eru nokkuð hátt uppi.

Hann segir stefnt að því að lagfæra vagninn á morgun, enda hafi staðið til að hann myndi aka um götur höfuðborgarsvæðisins í átta vikur. Engar athugasemdir hafi borist Strætó vegna auglýsingarinnar og því hafi þetta komið á óvart þrátt fyrir skiptar skoðanir á samfélagsmiðlum.
„Maður veit alveg að þetta var umdeilt, en þetta er sorglegt skemmdarverk.“