Ekkert þeirra átján sem kom með flugi hingað til lands eftir dvöl í Póllandi reyndist með mótefni gegn kórónuveirunni. Allur hópurinn er því með virkt smit veirunnar.
Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson samskiptastjóri almannavarna í samtali við Vísi. Hann hefur ekki upplýsingar um það hvort fólkið hafi verið með einkenni Covid-19, sjúkdómsins sem veiran veldur. Þá er ekki vitað hvar eða hvenær fólkið smitaðist, enda erfitt að skera nákvæmlega úr um það, segir Jóhann.
Fólkið er allt búsett á Íslandi og hafði verið saman á ferðalagi um Pólland. Hópurinn hefur verið í einangrun frá því að hann kom heim og verður áfram, samkvæmt sóttvarnareglum.
Ekki er ljóst hvort fólkið kom til landsins í fyrradag eða seint kvöldið áður, 13. október, og þannig farið í skimun á flugvellinum eftir miðnætti.
Tvær flugvélar lentu á Keflavíkurflugvelli í fyrradag, önnur frá Amsterdam á vegum Icelandair og hin frá London á vegum EasyJet. Hópurinn var ekki um borð í vél Icelandair, að sögn Ásdísar Ýrar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair.
Þá lenti flugvél WizzAir frá Varsjá á Keflavíkurflugvelli klukkan 23:25 að kvöldi 13. október. Ekki er hægt að útiloka að fólkið hafi verið um borð í þeirri vél, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum.