Um tuttugu manns sem komu með flugi frá Póllandi greindust með kórónuveiruna við landamæraskimun í gær. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í morgun.
Alls greindust tuttugu og tveir á landamærum, sem er óvenjumikill fjöldi. Af þeim eru tuttugu með íslenska kennitölu. Þórólfur sagði að annars væri lítið vitað um málið en nú væri beðið staðfestingar á því hvort fólkið væri með virkt smit eða hefði smitast fyrir löngu síðan.
Samkvæmt tölum dagsins á Covid.is reyndust þrír með virkt smit á landamærum. Beðið er mótefnamælingar í 19 tilfellum.
Þetta er annar stóri hópurinn sem greinist með veiruna á landamærum eftir að hafa verið á ferðalagi um Pólland. Átján manna hópur greindist með veiruna í síðustu viku og reyndist allur hópurinn með virkt smit. Þórólfur kvaðst aðspurður ekki vita hvort hóparnir tveir tengdust.