Ekki eru vísbendingar um að saknæmt athæfi hafi átt sér stað í tengslum við húsbílabruna í Grafningi í byrjun þessa mánaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Suðurlandi. Karlmaður á fertugsaldri lést í brunanum.
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn hjá lögreglu á Suðurlandi segir í samtali við Vísi að nú sé m.a. beðið niðurstöðu rannsóknar tæknideildar á eldsupptökum, sem og niðurstöðu úr krufningu. Hann býst við að bið eftir þessum niðurstöðum verði talsvert löng, einhverjar vikur.
Bráðabirgðaniðurstöður úr krufningu á manninum sem lést í brunanum bentu til þess að hann hefði látist úr súrefnisskorti.
Eldurinn kviknaði í húsbílnum föstudaginn 9. október. Greint var frá því í kjölfar brunans að enginn hjá fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra hefði svarað áframsendu símtali vegna brunans frá Neyðarlínunni á föstudagskvöld. Innhringjandi gafst upp eftir 57 sekúndur. Hönnunargalli í tölvukerfi neyðarlínunnar, sem sagður var hafa valdið því að símtalið skilaði sér ekki til lögreglu, var lagaður í kjölfarið.