Leikkonan Lori Loughlin hefur hafið afplánun vegna dóms í hinu svokallaða háskólasvikamyllumáli. Loughlin og eiginmaður hennar, Mossimo Giuannulli, voru á meðal fimmtíu annarra sem voru ákærð fyrir að taka þátt í svikum til þess að koma börnum sínum í nokkra virtustu háskóla Bandaríkjanna.
Loughlin var fyrirskipað að hefja afplánun sína fyrir 19. nóvember næstkomandi en hún ákvað að gera það fyrr í þeirri von að ljúka henni fyrir jól að því er fram kemur á vef People. Leikkonan fékk tveggja mánaða dóm fyrir þátttöku sína í svindlinu.
„Hún vonast til þess að vera komin heim fyrir jól, en hún verður að minnsta kosti komin heim fyrir áramót,“ segir heimildarmaður People og bætir við að hún ætli sér að fara inn í nýja árið og kveðja þar með þennan kafla í lífi sínu.
Loughlin og eiginmaður hennar höfðu upphaflega ætlað að neita sök í málinu en samþykktu að lokum samkomulag sem kveður á um fangelsisvist, sekt og samfélagsþjónustu. Loughlin mun samkvæmt samkomulaginu afplána tveggja mánaða fangelsisdóm og greiða 150 þúsund Bandaríkjadali í sekt og maður hennar fimm mánaða fangelsisdóm og greiða sekt upp á 250 þúsund Bandaríkjadali.