Matgæðingurinn Eva Laufey Kjaran sýndi þessa sniðugu uppskrift af apabrauði eða Monkey Bread á Instagram. Það þarf að leyfa deiginu að hefast í klukkustund svo gott er að gefa sér góðan tíma í þennan bakstur. Uppskriftina má finna hér fyrir neðan en aðferðina má svo auðvitað líka sjá betur í highlights á Instagramminu hennar Evu Laufeyjar HÉR.
Deigið
- 1 egg
- 60 g sykur
- 3 dl mjólk
- 500 g hveiti
- 2 tsk þurrger
- ½ tsk salt
- 1 tsk kanill
- 80 g smjör við stofuhita
Aðferð
- Fyrsta skrefið er að hita mjólkina þar til hún er volg (en alls ekki heit)
- Setjið þurrgerið og smá sykur saman við. Hrærið og leggið viskastykki yfir skálina í 2-3 mínútur.
- Og setjið svo öll hráefnin út í hrærivélaskál og passið að hafa smjörið við stofuhita.
- Hnoðið í vél eða með höndum þar til deigið er orðið slétt og fínt. Ef ykkur finnst það of blautt bætið þá smá hveiti saman við.
- Leggið visastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í klukkustund.
- Skerið deigið í jafn litla bita og mótið kúlur.
- Veltið kúlunum upp í sykurblöndunni* (sjá hér fyrir neðan) og raðið svo í smurt form.
- Apabrauðið fer svo inn í ofn við 180 gráður (blástur) í 35 mínútur.
*Sykurblandan
- 125 g smjör (brætt)
- 150 g púðursykur
- 3 tsk kanill
- 1 tsk vanillusykur