Karlmaður á sextugsaldri var í gær úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald, eða til 12. nóvember, vegna rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á innbrotum og þjófnuðum í umdæminu. Úrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Í tilkynningu lögreglu vegna málsins segir að ekki sé unnt að veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo stöddu en í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var greint frá stórri aðgerð sem lögregla réðst í á miðvikudag í Mosfellsbæ vegna innbrotahrinu í bænum.
Lögregla lagði hald á mikið af þýfi í tveimur húsum í aðgerðinni og var einn handtekinn.
Talsvert hefur verið rætt um innbrotahrinu í hverfum höfuðborgarinnar að undanförnu, meðal annars í Mosfellsbæ þar sem íbúar hafa verið uggandi yfir ástandinu.
Þannig er vitað til þess að brotist hafi verið inn í eitt og sama fjölbýlishúsið fjórum sinnum og íbúi sem fréttastofa ræddi við sagðist hafa orðið fyrir tugmilljóna tjóni, sem sé ekki síður tilfinningalegt tjón.