„Sem dæmi hafa orðið fjórar eða fimm vaxtalækkanir á undanförnum misserum,“ útskýrir Páll.
„Fasteignalán eru líklega dýrasta þjónusta sem við flest okkar kaupum yfir ævi okkar og getur munað gríðarlegum fjármunum að leitast eftir best kjörum á lánamarkaði hverju sinni. Þegar fólk reiknar upp lánin sín og hvað það er að greiða mikið til baka yfir lánstímann sér það fljótt að breyta láninu getur sparað stórar fjárhæðir og líklega besta tímakaup sem fólk getur haft yfir ævina.“

Bylting í endurfjármögnun
Þegar kemur að endurfjármögnun, segir Páll að það sé mikilvægt að leita ráða.
„Ég segi fólki að leita ráða á þrjá mismunandi staði. Fjármálastofnun, til fagaðila eins og fasteignasala og svo ættingja sem hefur reynslu á þessu sviði og meta svo sjálfir hver besti og hagkvæmasti kosturinn er fyrir hvern og einn.“
Nefnir hann vefina Aurbjorg.is og Herborg.is sem geri samanburð á þeim lánum sem eru í boði á markaðinum hverju sinni.
„Eftir að vextir fóru að lækka svona mikið og kostnaður við lántöku og uppgreiðslu lána fór einnig lækkandi þá hefur orðið mikil bylting í þeim fjölda sem hafa verið að endurfjármagna. Hvað margir eða hversu mörg heimili hafa endurfjármagnað er ekki vitað. Þeir sem hafa ekki endurfjármagnað á síðustu sex til tólf mánuðum ættu klárlega að skoða sín mál því tapið gæti verið töluvert á að gera það ekki.“
En hvað ber að hafa í huga?
„Ég segi alltaf að það er þrennt sem gott er að hafa í huga. Hversu mikið ertu að greiða til baka yfir lánstímann? Til dæmis er 30 milljóna verðtryggt lán til 40 ára um það bil 100 til 110 milljónir til baka í endurgreiðslu og mikilvægt að hafa það eins lágt og hægt er. Svo þarf að bera saman vexti. Það þriðja er að skoða hversu mikið af afborguninni er að fara niður af höfuðstólnum.“
Mikilvægt að skoða málin reglulega
Að Páls mati eru að stærstu mistökin sem fólk geri sé í raun að gefa lánamálum sínum ekki alvarlega skoðun varðandi endurfjármögnun.
„Fólk er oft tilbúið að hlaupa á eftir 20 til 25 prósent afslætti á Taxfree, Black Friday eða Cyber Monday fyrirbærum, sem er smá sparnaður við hlið þess að skoða lánamálin sín reglulega.“
Hann segir að helstu ókostirnir við endurfjármögnun séu að fólki finnist almennt leiðinlegt að standa í þessu.
„Fólk veit ekki oft hvert á að leita, við hvern á að tala. Hvaða lán á að velja, hvernig lán á fólk að velja það er að segja verðtryggt eða óverðtryggt og svo framvegis. Þetta virkar oft mjög flókið og leiðinlegt og á til með að fresta þessari vinnu vegna þessa. En lífið er jú stundum þannig að maður þarf að taka á sig verkefni sem eru mis skemmtileg til að ná árangri.“