Þrír létust í brunanum á Bræðraborgarstíg í sumar og fleiri slösuðust. Þrettán manns voru inni í húsinu þegar Marek er talinn hafa valdið eldsvoðanum.
Marek neitaði sök við þingfestingu málsins á dögunum. Þá fór Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Mareks, fram á að þinghaldi í málinu yrði lokað.
Reikna mætti með mikilli þolraun í dómsal sem ætti ekki erindi við almenning. Því mótmælti Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari og sagðist ekki sjá ástæðu til að loka þinghaldi. Barbara Björnsdóttir dómari sagðist myndu taka kröfuna til skoðunar.
Meira þurfi að koma til
Landsréttur og héraðsdómur vísuðu báðir til þeirrar greinar stjórnarskrárinnar að dómþing skuli háð í heyranda hljóði. Frá því mætti víkja meðal annars til að gæta hagsmuna málsaðila. Um sé að ræða undantekningu frá meginreglu sem beri að skýra þröngt.
Í úrskurði héraðsdóms segir að ríkar ástæður þurfi að vera til að víkja frá meginreglunni.
„Þótt það sé yfirleitt þungbært fyrir ákærða og aðra þá sem mál varðar að þinghöld í sakamálum séu háð fyrir opnum tjöldum nægir það eitt og sér ekki til þess að þeim verði lokað, heldur verður eitthvað meira til að koma svo að það verði gert,“ segir í úrskurði Símonar Sigvaldasonar, dómstjóra við Héraðsdóm Reykjavíkur.