Vísi barst ábending frá lesanda að Kristvin hafi ákveðið að opna ljósmyndastúdíói sitt í einn dag og bjóða þeim fjölskyldum sem ekki hafa efni á myndatöku að koma til sín í myndatöku endurgjaldslaust. Hverri fjölskyldu úthlutaði hann 15 mínútur fyrir framan vélina og segir hann daginn hafa fyllst á innan við sólarhring.
Jólamyndatakan er svo stór hluti af jólunum, svo mikið jólin, næstum jafn mikilvæg og sjálf jólasteikin. En ég veit að það eru margir sem hafa aldrei getað leyft sér að fara til ljósmyndara og þess vegna langaði mig að gera þetta.
„Ég er reyndar löngu búinn að fylla daginn en ég náði að bóka alveg átján fjölskyldur svo að þetta verður langur og skemmtilegur dagur,“ segir Kristvin og hlær.
Aðspurður segist hann ekki hafa tök á því að bóka annan dag þó hann feginn vildi en miðað við eftirspurn þá hefði hann auðveldlega getað fyllt nokkra daga í viðbót.

„Dóttir mín Irma Mjöll æltar að vera svo góð að hjálpa pabba sínum við þetta. Ég gæti þetta engan veginn einn.“
Kristvin hefur verið að mynda í yfir tíu ár og kláraði hann nám í ljósmyndun í New York í fyrra. Hann segir verkefnin á tímum Covid-faraldurs eðlilega hafa dottið niður en hann hefur mikið verið í því að mynda viðburði eins og tónleika og annað í þeim dúr.
Á heimasíðu hans og Instagram prófíl má einnig sjá að hann tekur að sér fjölbreytt verkefni, allt frá landslagsmyndum til brúðkaups- og barnamynda.
„Öll svona verkefni eru auðvitað flest dottin niður en ég hef líka mikið verið í því að mynda norðurljósin, hef svolítið verið að sérhæfa mig í því. Ég stofnaði norðurljósagrúbbuna Aurora Hunters á Facebook og hún hefur eiginlega alveg sprungið síðustu ár. En í dag eru 16 þúsund meðlimir í hópnum.“

„Í þessum hóp eru allir að aðstoða alla, gefa ráð og koma með ábendingar hvar og hvenær er best að skoða norðurljósin.“
Kristvin segist finna fyrir mikilli samstöðu í þjóðfélaginu þessa dagana og vill hann hvetja fólk til að gera það sem það getur til að hjálpa náunganum.
Mér fannst ég ekkert endilega vera að gera eitthvað merkilegt en svo er ég að finna fyrir svo miklu þakklæti frá fólki. Þetta þurfa ekki alltaf að vera peningagjafir, bara að gefa eitthvað af sér. Fólk á ekki fyrir einu né neinu þessa dagana svo að það er svo mikilvægt að við stöndum saman sem þjóð. Við erum svona þjóð sem getur vel staðið saman á svona tímum.