Tíkurnar Perla og Urta eru einu blóðhundar landsins en þær sinna hátt í fjörutíu útköllum á ári. Hundar af þessari tegund eru almennt ræktaðir sem sporhundar og undirgangast stífa þjálfun - en þekkja þó ekki hefðbundna hlýðniþjálfun á borð við að setjast, leggjast og heilsa.
Perla er nú orðin tíu ára og fer brátt að komast á aldur og hefur sveitin því keypt hundinn Pílu frá Ungverjalandi sem kemur til landsins í janúar.

„Nú erum við búin að kaupa hana pílu frá Ungverjalandi og við erum alltaf öðru hverju með þrjá hunda vegna þess að við þurfum að hafa einn hund sem er í toppformi á réttum stað í lífinu og þar af leiðandi erum við með einn gamlan sem er búinn að klára sitt lífsverk og svo þurfum við að fara að byrja á nýjum hundi svo við séum með tvo virka hunda hverjum tíma,“ segir Þórir Sigurhansson, hundaþjálfari hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar.

Hundarnir gegna mikilvægu hlutverki í björgunarsveitinni.
„Við höfum fundið manneskju sem hefur verið týnd í ellefu daga. Þannig að við erum mjög oft að rekja slóðir sem eru kannski tveggja til þriggja daga gamlar, það kemur reglulega fyrir. Þannig að geta hundsins er alveg með ólikindum,“ segir Þórir.
„Það sem gerir þegar hundurinn fer að rekja slóð er að þessi stóra húð sem er á þeim leggst fram og yfir augun. Þegar hundurinn er að rekja slóð sér hann nánast ekki neitt, bara rétt fram fyrir sig, þannig við þurfum að passa upp á að hann labbi hreinlega ekki á.“