Þetta segir Sigurður Ingi um frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra í samtali við Morgunblaðið. Þar segir að þingflokkar bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks geri sterka fyrirvara við frumvarpið og segir Sigurður Ingi að fyrirvarar Framsóknarmanna séu alveg skýrir og verði það ekki samþykkt nema þeir „haldi alla leið“.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendinu „í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.“
Samkvæmt frumvarpinu myndi þjóðgarðurinn ná yfir um 32 prósent af flatarmáli landsins.
Njáll Trausti mun ekki greiða atkvæði með
Efasemdaraddir hafa heyrst úr röðum stjórnarþingmanna. Þannig hefur Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagt frumvarpið vera í „fullkominni andstöðu við þau sveitarfélög sem eigi hlut að máli og að ráðherranum hafi mistekist að ná nauðsynlegri sátt um málið.“
Njáll Trausti Friðbertsson, annar þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir í samtali við Morgunblaðið í morgun að hann muni ekki greiða atkvæði með frumvarpinu eins og það er núna.
Stuðningurinn meiri en áður
Fyrr í mánuðinum sagði Guðmundur Ingi í samtali við fréttastofu að víðtækt samráð hafi verið haft við sveitarfélögin og viti hann að stuðningur við málið sé það miklu meiri en áður.
„Sérstaklega vegna þess að við höfum gert úrbætur á því sem snýr að skipulagsvaldi sveitarfélaganna og mætt þeim kröfum sem þau voru með uppi þar. Þannig að ég held að stuðningurinn sé mun víðtækari heldur en fréttir síðustu daga hafa gefið til kynna,“ sagði Guðmundur þá.