Adam Niedzielski, heilbrigðisráðherra landsins, kynnti aðgerðirnar í dag en gert er ráð fyrir að 40 milljarðar pólskra zloty, sem samsvarar um 1.408 milljörðum íslenskra króna, fari í stuðning til fyrirtækja sem þurfa að loka.
Heilbrigðiskerfi Póllands hefur átt í miklum erfiðleikum við að takast á við aðra bylgju kórónuveirufaraldursins og hafa daglegar greiningar aukist gífurlega. Þegar mest lét í nóvember greindust 27 þúsund á einum sólarhringi.
Niedzielski varaði fólk við því að mikil hætta væri á þriðju bylgju eftir áramót og biðlaði hann til Pólverja að gæta vel að sóttvörnum. Þó að von væri á bóluefni þýddi það ekki að hægt væri að slaka á.
Aðgerðirnar munu ekki taka gildi fyrr en eftir jólahátíðirnar en útgöngubann verður á gamlárskvöld frá klukkan 7 að kvöldi og gildir það til 6 að morgni á nýársdag. Niedzielski sagði að það væri gert til að koma í veg fyrir hópamyndanir um áramótin og bætti hann við að allir þeir sem koma munu til landsins frá og með 28. desember þurfi að fara í tíu daga sóttkví.
Pólsk yfirvöld gera ráð fyrir því að fyrstu skammtar bóluefnis við veirunni berist til landsins í lok desember. Stefnt er að því að bólusetja alla fullorðna í landinu, sem eru um 30 milljón manns, og hafa átta þúsund bólusetningarstöðvar verið settar upp um landið allt.