Gróa Axelsdóttir skólastjóri Stapaskóla, sem er leik- og grunnskóli, segir að um níutíu börn séu í sóttkví. Öll börn leikskólans eru í sóttkví og nemendur í 1. bekk skólans. Smit hjá barni á leikskólanum fékkst staðfest í gær og tekur nú við fimm daga sóttkví hjá nemendum og starfsmönnum. Þau fara öll í sýnatöku í næstu viku, en það fer eftir því hvenær þau voru síðast í skólanum. RÚV greindi fyrst frá.
„Vonandi förum við öll í skimun ekki seinna en á jóladag, svo að fólk geti notið jólanna að einhverju leyti,“ segir Gróa í samtali við fréttastofu.
Á hinum skólanum, leikskólanum Holti, eru 86 nemendur í sóttkví og 24 starfsmenn. Nemandi og starfsmaður greindust með veiruna á fimmtudag að sögn Maríu Petrínu Berg, leikskólastjóra. Sóttkví þeirra gildir fram að aðfangadag og munu allir sem eru í sóttkví af skólanum fara í skimun á aðfangadag. Þau sem greindust með Covid verða í einangrun fram yfir áramót að sögn Maríu.