Heilt yfir voru rúmlega tvöfalt fleiri blaðamenn myrtir vegna starfa þeirra á árinu en árið 2019. Minnst 30 blaðamenn voru myrtir og þá allavega 21 vegna starfa þeirra. Að mestu í Mexíkó, Afganistan og Filippseyjum.
Þrír dóu í átökum eða annars konar verkefnum sem reyndust hættuleg. Blaðamenn sem deyja í átökum hafa ekki verið færri frá árinu 2000 en þeir þrír sem dóu dóu allir í loftárásum í Idlib í norðurhluta Sýrlands.
Í síðasta mánuði voru þrír blaðamenn myrtir í Mexíkó. Þetta er í fyrsta sinn sem flestir blaðamenn eru myrtir vegna starfa þeirra í Mexíkó, frá því CPJ byrjaði að vakta ofbeldi gegn blaðamönnum árið 1992, samkvæmt frétt Guardian.
Ástandið versnað í Mexíkó
Landið hefur þó lengi þótt hættulegt fyrir blaðamenn og hafa margir slíkir sem hafa verið að rannsaka glæpasamtök og spillingu orðið fyrir árásum.
Vonast var til þess að ástandið myndi skána með kjöri Andrés Manuel López Obrador, forseta landsins, árið 2018. Hann hafði heitið því að taka á vandamálinu og vernda blaðamenn.
Ofbeldið hefur þó þvert á móti aukist og forsetinn sjálfur notar daglega blaðamannafundi sína iðulega til að gagnrýna blaðamenn og aðgerðarsinna í Mexíkó. Þá hefur ríkisstjórn hans veikt opinberar varnir blaðamanna. Tveir þeirra sem voru myrtir á árinu voru með lífverði á vegum hins opinbera, sem einnig voru myrtir.
Guardian segir marga blaðamenn sem hafa verið myrtir í Mexíkó á undanförnum árum hafa verið að rannsaka möguleg tengsl milli glæpasamtaka og embættismanna.