„Við munum halda því ótrauð áfram,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við fréttastofu.
„Ég ræddi við fjármálaráðherra í gær og tjáði honum mína óánægju með þetta. Það lítur auðvitað þannig út og er greinilegt að rekstraraðilar þessar salar voru ekki að fylgja sóttvarnareglum og voru ekki að uppfylla þær reglur sem eru í gildi. Auðvitað hefði ráðherrann átt að átta sig á því og aðhafast.“
„Svona atvik skaðar traustið á milli flokkanna og gerir samstarfið erfiðara. Sérstaklega vegna þessa að við stöndum í stórræðum þessa dagana, hins vegar hefur samstaðan innan stjórnarinnar verið góð og ég tel okkur hafa náð miklum árangri í því sem við erum að vinna að. Við munum halda því ótrauð áfram.“
Spurð hvernig ríkisstjórnin muni vinna úr þeim skaða sem þetta atvik hefur á traustið milli flokkanna svarar Katrín: „Við bara vinnum úr því.“
Katrín segir að eðlilega séu gerðar ríkari kröfur til ráðherra og forystufólks í samfélaginu um að vera til fyrirmyndar þegar staðið sé í þeim stórræðum sem lagst hefur verið í vegna kórónuveirufaraldursins.
„Þannig að það er auðvitað alvarlegt mál. Við erum að leggja á fólk að standa sig og virða reglur til að við komumst í gegnum þennan faraldur.“
Er alveg hægt að biðjast afsökunar og halda áfram eins og ekkert hafi ískorist?
„Ég held að ríkisstjórnin hafi náð miklum árangri. Bæði í baráttunni við veiruna og líka í viðbrögðum sínum við faraldrinum og hvernig við erum að tryggja að samfélagið geti risið hratt upp aftur. Ég held að það sé stærsta verkefnið núna. En ég er auðvitað búin að ræða við ráðherrann og þetta er ekki gott mál.“
Margir hafa kallað eftir afsögn fjármálaráðherra.
„Ég geri ekki kröfu um afsögn.“
Hún segist hafa farið yfir málið með Bjarna í samtali sínu við hann í gær.
„Ég fór yfir það með honum að þetta ylli mér miklum vonbrigðum.“
Er þetta afsakanlegt?
„Já, ég held að þetta sé afsakanlegt.“