Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna fyrirspurna fjölmiðla.
Um er að ræða svokallað dagbók lögreglu sem fjölmiðlar fá senda á hverjum morgni. Þar er farið yfir helstu verkefni lögreglu síðastliðinn sólarhring. Að morgni aðfangadags var slíkur póstur sendur á fjölmiðla þar sem fjallað var um umrætt samkvæmi í Ásmundarsal og vitnað orðrétt upp úr skýrslu lögreglu sem fór á vettvang.
Í henni var tekið fram að „háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“ hefði verið í umræddu samkvæmi. Fjölmiðlar sendu fyrirspurnir á ráðherra í ríkisstjórn Íslands sem neituðu einn af öðrum fyrir að hafa verið í samkvæminu. Vísir hafði heimildir fyrir því að Bjarni hefði verið umræddur ráðherra.
Skömmu síðar greindi hann sjálfur frá því á Facebook-síðu sinni þar sem baðst afsökunar á veru sinni í samkvæminu.
Í tilkynningu sem fjölmiðlum barst frá lögreglu í dag er tekið fram að vinnureglan sé að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr dagbók lögreglunnar þegar samantektir eru sendir hverju sinni. Það hafi farist fyrir á aðfangadag og verður málið skoðað að sögn lögreglu.
Tilkynninguna í heild má sjá hér fyrir neðan:
Vegna fyrirspurna fjölmiðla um tölvupóst sem þeim barst frá embættinu snemma á aðfangadag skal þess getið að vinnureglan er sú að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr dagbók lögreglunnar þegar samantektir úr henni eru sendar hverju sinni. Í samantektinni, sem var send fjölmiðlum á aðfangadag, fórst það fyrir. Ef misbrestur verður á framansögðu er það ávallt skoðað til hlítar.