Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nú skömmu fyrir hádegi. Lögregla segir ekki unnt að greina frekar frá rannsókninni að svo stöddu.
Fram kemur í tilkynningu að lögregla hafi jafnframt til rannsóknar „nokkurn fjölda mála er varða hugsanleg brot á sóttvarnalögum“. Viðburðurinn í Ásmundarsal sé einnig rannsakaður með tilliti til slíkra brota.
Yfirlýsing lögreglu í heild
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar nokkurn fjölda mála er varða hugsanleg brot á sóttvarnalögum. Mikið hefur verið spurt um mál er varðar atvik í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Formleg rannsókn er hafin í málinu, sem m.a. felst í því að verið er að yfirfara upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna sem mættu á staðinn með tilliti til brota á sóttvörnum. Ekki er unnt að greina frekar frá rannsókn málsins að svo stöddu.
Málið hefur vakið mikla athygli síðan lögregla greindi frá því á aðfangadag að „hæstvirtur ráðherra“ hefði verið viðstaddur viðburð í miðborginni kvöldið áður, sem leystur hefði verið upp af lögreglu á ellefta tímanum. Greint var frá því að tugir hefðu verið samankomnir á staðnum og nálægðarmörk og grímuskylda ekki virt.
Síðar kom í ljós að umræddur ráðherra var Bjarni Benediktsson og að viðburðurinn var „sölusýning“ á listaverkum í Ásmundarsal. Bjarni hefur sagst aðeins hafa verið inni í salnum í fimmtán mínútur, auk þess sem hann segist ekki hafa brotið sóttvarnalög með veru sinni þar. Margir hafa kallað eftir afsögn hans vegna málsins.
Eigendur Ásmundarsalar, hjónin Aðalheiður Magnúsdóttir og Sigurbjörn Þorkelsson, sögðu í yfirlýsingu vegna málsins í fyrradag að reglur um fjöldatakmarkanir og opnunartíma hefðu ekki verið brotnar á Þorláksmessukvöld.
Fjöldi í húsinu hefði ekki farið yfir fimmtíu manns en salurinn hafi leyfi fyrir þeim fjölda. Grímunotkun hefði hins vegar verið ábótavant og því ljóst að mistök hefðu verið gerð í að tryggja sóttvarnir.