Hættustig vegna snjóflóða er nú í gildi á Flateyri og Patreksfirði. Varðskipið Týr er nú á leið vestur á firði til að auka viðbúnað á svæðinu. Skipið var á níunda tímanum í kvöld statt á Breiðafirði en er þar aftakaveður, norðaustan stormur og 6-8 metra ölduhæð. Þetta kemur fram í færslu Landhelgisgæslunnar á Facebook-síðu hennar.
Þar segir að Thorben Lund, skipherra Týs, hafi sagt að búast megi við að bæti í vind og sjó eftir því sem vestar dregur í nótt en gert er ráð fyrir að skipið verði komið vestur í fyrramálið.
Búið er að rýma íbúðarhús við Ólafstún á Flateyri og nokkur hús ofarlega í bænum þar að auki. Þá er búið að rýma tvö íbúðarhús við Urðargötu á Patreksfirði. norðaustanhríð er spáð fram á miðvikudag.