Í sviðsmyndum sem Seðlabankinn birti í dag er gert ráð fyrir að atvinnuleysi geti orðið allt að sjö prósent á þessu ári. Gengið er út frá því að ferðamenn verði allt að 90 prósent færri það sem eftir lifir árs en á sama tímabili í fyrra.
Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans segir að staða og horfur í efnahagsmálum hafi breyst mikið á undraskömmum tíma.
„Þessi farsótt er að valda því að það er að verða verulegur samdráttur í heimsbúskapnum. Bæði farsóttin og aðgerðir stjórnvalda til að hemja hana hafa valdið því að framleiðslukeðjur víða um heim eru í uppnámi og dregið hefur úr framleiðslugetu og framboði á vöru og þjónustu,“ sagði Þórarinn þegar hann fór yfir stöðu mála á kynningarfundi í dag. Þá hafi líka dregið verulega úr eftirspurn á heimsvísu.
Þótt ekki standi til að birta þjóðhags- og verðbólguspá Seðlabankas fyrr en í maí setur bankinn fram tvær sviðsmyndir þar sem reynt er að leggja mat á mögulega framvindu miðað við ákveðnar forsendur. Þar er stuðst við þjóðhagslíkan bankans með ákveðnum forsendum sem megi rekja til afleiðinga farsóttarinnar.
Í báðum sviðsmyndum er gert ráð fyrir að ferðamönnum fækki um 90 prósent á næstu mánuðum samanborið við árið í fyrra.

Í grunnspá peningastefnunefndar fyrir þetta ár var reiknað með að atvinnuleysi yrði 4,2 prósent á þessu ári. Í mildari sviðsmynd Seðlabankans frá í dag er hins vegar búist við aðþað verði 5,7 prósent og í þeirri dekkri að atvinnuleysið fari upp í 7 prósent. En til samanburðar varð atvinnuleysi hér á landi eftir hrun mest rúmlega 9 prósent.

Í grunnspá bankans ríkti bjartsýni um vöxt einkaneyslu á þessu ári og því spáð að hún yrði 2,4 prósent. Í mildari sviðsmyndinni er hins vegar gert ráð fyrir að hún dragist saman um 1,1 prósent og 3,8 prósent í þeirri dekkri. Ef það yrði raunin myndi einkaneysla dragast saman um 6,2 prósentur frrá árinu 2019.

Allar væntingar um hagvöxt á þessu ári eru líka foknar út í veður og vind. Miðað við sögulega mikinn hagvöxt á undanförnum árum var reiknað með hóflegum hagvexti upp á 0,8 prósent á þessu ári í grunnspá Seðlabankans. En í mildari sviðsmynd bankans nú verður hagvöxtur í fyrsta skipti í mörg ár neikvæður um 2,4 prósent en 4,8 prósent í dekkri myndinni, sem yrði gífurlega mikill umsnúningur frá frá fyrra ári eða upp á 5,5 prósentur.
Það ríkir aftur á móti bjartsýni í Seðlabankanum varðandi þróun verðbólgunnar og er það meðal annars skýrt með áhrifum aðgerða stjórnvalda, mikilli lækkun olíuverðs á heimsmarkaði og minni eftirspurn eftir vöru og þjónustu.

Í mildari sviðsmynd Seðlabankans er reiknað með að verðbólga verði 1,5 prósent á þessu ári, eða o,4 prósentum minni en spáð var í grunnspá bankans. Í dekkri sviðsmyndinni er svo reiknað með að verðbólgan verði heldur lægri, eða 1,4 prósent.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri ítrekaði á kynningarfundinum í dag að þessar sviðsmyndir væru aðeins tilraun til að reyna að átta sig á horfum í efnahagsmálum. Ekki væri um að ræða þjóðhagsspá sem eiins og áður sagði verður ekki lögð fram fyrr en í maí. Ásgeir segir að þá verði búið að reikna allar aðgerðir stjórnvalda og bankans inn í spána sem ætti að gefa raunhæfari mynd af stöðu mála.